Í kjölfar rannsóknar sem stjórn Avion Group óskaði eftir á tilteknum viðskiptasamningum milli Excel Airways Group og Alpha Airports Group, sem ekki er að fullu lokið, hefur verið ákveðið, með tilliti til varúðarsjónarmiða, að bakfæra að fullu framangreinda samninga með því að leiðrétta ársreikning Excel Airways Group fyrir fjárhagsárið 2005 um 10 milljónir dala (að frádregnum skattaáhrifum).

Þetta kemur fram í sex mánaða uppgjöri félagsins. Þar kemur fram að bakfærslan hefur engin áhrif á sjóðsstöðu, áætlanir né fjárhagslegar niðurstöður fyrir yfirstandandi rekstrarár Avion Group. Framangreind fjárhæð mun ekki hafa neikvæð áhrif á afkomu Excel Airways Group á næstu árum. Í framhaldi af þessu hefur stjórn Avion Group ákveðið að styrkja yfirstjórn Excel Airways og verður það tilkynnt þegar því hefur verið lokið.