Avion Group er í öðru sæti á Europe's 500 árið 2005 en það er listi yfir framsæknustu fyrirtæki Evrópu. Þessi viðurkenning undirstrikar að Avion Group er í fremstu röð fyrirtækja í Evrópu.

Avion Group er fyrsta íslenska fyrirtækið sem nær svo ofarlega á Europe's 500. Stjórnendur Avion Group telja verðlaunin mikinn heiður og hvatningu til frekari sóknar um allan heim. Verðlaunin eru staðfesting á markvissum vexti Avion Group undanfarin ár.

Í viðurkenningunni frá Europe's 500 segir að stjórnendum Avion Group hafi tekist að búa til mjög framsækið fyrirtæki sem hefur náð góðum árangri.

Avion Group var valið úr hópi þúsunda fyrirtækja frá 18 Evrópulöndum sem uppfylltu ströng skilyrði um mikinn og stöðugan vöxt undanfarin þrjú ár. Verðlaunin hvetja til frumkvæðis, nýjunga og stöðugrar og markvissrar sóknar á ný mið.

?Þessi verðlaun eru mikil viðurkenning á starfsemi Avion Group og gefur okkur byr undir báða vængi fyrir væntanlega skráningu á íslenskan hlutabréfamarkað í janúar næstkomandi,'' sagði Magnús Þorsteinsson, stjórnarformaður Avion Group. ?Verðlaunin hafa einnig hvetjandi áhrif fyrir allt okkar starfsfólk og undirstrikar þá staðreynd að Avion Group hefur á að skipa fólki sem er í fremstu röð í evrópsku viðskiptalífi."

Athygli vekur að samtals sjö íslensk fyrirtæki eru á lista Europe's 500 í ár. Þau eru: Avion Group í öðru sæti, Actavis Group í 23. sæti, Kögun í 80. sæti, Creditinfo Group í 103. sæti, Opin Kerfi Group í 136. sæti, Tölvumyndir í 179. sæti og Össur í 185. sæti.

Europe's 500 listinn er tekinn saman af Europe's Entrepreneurs for Growth sem hafa aðsetur í Brussel. Listinn hefur verið tekinn saman á hverju ári frá 1995.

Verðlaunin verða veitt formlega þann 19. nóvember í Barcelona. Al Gore, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna og Josep Borrell, forseti Evrópuþingsins verða meðal heiðursgesta á verðlaunaafhendingunni.

Um Avion Group

Avion Group hóf starfsemi í upphafi ársins 2005 og starfa hátt í 5.000 manns hjá félaginu á 85 starfsstöðvum um allan heim. Avion Group er leiðandi í alhliða flutningum, hvort sem í lofti, láði eða legi.