Avion Group hefur gengið frá greiðslu á 86% hlutafjár í Atlas Cold Storage, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Í kjölfar yfirtökunnar hafa stjórnarmeðlimir Atlas Cold Storage Income Trust og Atlas Cold Storage Income Trust hætt störfum. Frá 3. nóvember 2006 verður verður stjórn Atlas Cold Storage Income Trust skipuð Magnúsi Þorsteinssyni, Jon Love og Joseph Mazzocco. Stjórn Atlas Cold Storage Holding Inc. verður skipuð Baldri Guðnasyni, Joe Mazzocco og Reyni Gíslasyni.

Atlas og Avion Group tilkynna einnig að Reynir Gíslason, forstjóri Eimskip Ameríku tekur við stöðu forstjóra Atlas af David Williamsson.

"Atlas er framúrskandi fyrirtæki með sterkt stjórnendateymi sem hefur skilað góðum árangri að undanförnu og á þessum styrku stoðum ætlum við að byggja enn frekar. Ég hef trú á því að umfangsmikil starfsemi Avion í skipaflutningum, landflutningum og kæligeymslum styðji vel við núverandi starfsemi Atlas sem og við frekari vöxt Atlas," segir Reynir Gíslason, forstjóri Atlas.

?Þetta er mjög spennandi tími fyrir Atlas þegar fyrirtækið tekur höndum saman við ört vaxandi alþjóðlegt flutninga- og frystigeymslufyrirtæki. Sérstaklega gleðst ég yfir því að Atlas verður nú hluti af fyrirtæki sem hefur viðurkennt það mikla uppbyggingastarf sem unnið hefur verið hjá Atlas," segir David Williamson fráfarandi forstjóri Atlas.

Starfsemi Atlas Cold Storage Income Trust fer fram í gegnum fyrirtækið Atlas Cold Storage sem er annað stærsta kæligeymslufyrirtæki Norður Ameríku. Atlas Cold Storage er með 53 frysti- og kæligeymslur í Bandaríkjunum og Kanada. Starfsmenn félagsins eru 4500 talsins.