Avion Group hefur keypt 19% hlut í bandaríska leiguflugfélaginu Casino Express, sagði talsmaður félagsins í samtali við Viðskiptablaðið fyrr í dag.

Kaupverð hlutarins hefur ekki verið gefið upp.

Stjórnendur Casino og aðrir fjárfestar munu eignast 79% hlut í félaginu í viðskiptunum, samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins.

Casino er staðsett í Elko í Nevada-fylki og sérhæfir sig í flugflutningum á fjárhættuspilurum frá 90 borgum í Ameríku til Elko.

"Kaupin eru gerð til þess að tryggja betri nýtingu flugflota Avion með viðskiptasamningum við Casino," sagði heimildamaður Viðskiptablaðsins.

Heimildamaðurinn segir viðskiptasamningana tryggja að flugflotinn verði nýttur til verkefna í öðrum heimshlutum þegar lítið er um ferðalög innan Evrópu.

Avion rekur flugfélögin Air Atlanta, Íslandsflug og Excel Airways. Samskipti Excel og Avion byrjuðu með svipuðum viðskiptasamningum áður en félagið tók það yfir.