Avion Group tekur formlega til starfa þann 1. janúar 2005 og er stefnt á skrásetningu félagsins á hlutabréfamarkað á Íslandi á næsta ári. Tilvonandi stjórnarformaður félagsins, Magnús Þorsteinsson, segir þó að ákveðin dagsetning skrásetningar hafi ekki verið ákveðin.

Avion Group mun samanstanda af Air Atlanta Icelandic, Air Atlanta Europe, Íslandsflugi, Excel Airways, Air Atlanta Aero Engineering, sem rekur flugskýli í Shannon á Írlandi, Avia Services, sem sinnir viðgerðum á varahlutum og Suðurflugi sem sinnir flugvélaafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli. Velta félagsins verður um 72 milljarðar íslenskra króna, starsmenn verða um og yfir þrjú þúsund talsins og fjöldi flugvéla verður 63. "Gera má þó ráð fyrir að fjöldi flugvéla verði aukinn þegar líður að áramótum," segir Magnús.

"Við viljum meina að um alþjóðlegan flugrisa verði að ræða en velta sameinaðs félags verður um milljarður bandaríkjadollara á ári," segir Magnús. Nýlega náði Air Atlanta samningnum um kaup á 30,9% hlut í Excel Airways. "Eignarhluturinn félaginu er því orðinn 71,4% og þar sem félagið er skráð á breska hlutabréfamarkaðinn, hefur myndast yfirtökuskylda til þeirra hluthafa sem eftir standa. Þeim hluthöfum verður því gert yfirtökutilboð á næstu dögum," segir Magnús. Forstjóri Excel Airways er og verður áfram Phil Wyatt. Magnús segir að þegar fram í sæki verði breytingar á rekstri félagsins og áhersla lögð á hagræðingu og samþættinum í flugrekstrinum. "Sameinað flugfélag verður það lang stærsta og öflugasta í heiminum í þessum geira sem er leiga flugvéla með áhöfn, viðhaldi og tryggingum," segir Magnús. Forstjóri sameinaðs félags verður Ómar Benediktsson.

Starfsstöðvar félagsins verða fyrst um sinn um 20 talsins í öllum heimsálfum nema á Suðurksautslandinu. "Við vinnum þó að því að fljúga til allra heimsálfa áður en langt um líður," segir Magnús. Hann segir Íslendinga eiga sér langa sögu í flugiðnaðinum og ekki bara á Íslandi heldur um allan heim og framundan séu eflaust góðir tímar í fluginu. Nafn fyrirtækisins Avion Group er tileinkað flugsögunni og þeim alþjóðlegu flugfrumkvöðlum sem áttu þátt í að koma á fót þeim undirstöðum sem þessi iðnaður er í dag byggður á. "Par Avion er alþjóðlegt orð og merkir, Með flugi," segir Magnús Þorsteinsson.