Avion Group á í alvarlegum viðræðum við þriðja aðila um sölu á meirihluta hlutafjár í Avion Aircraft Trading. Verðmat félagsins í samningaviðræðunum er yfir 100 milljónir Bandaríkjadala eða um 7,5 milljarður króna sem er verulega umfram bókfært virði.

Bókfært virði félagsins er 5 milljónir dala 375 milljónir króna. Ef af sölunni verður, kemur hún til með að hafa mikil áhrif á afkomu Avion Group á yfirstandandi fjárhagsári sem lýkur 31. október 2006.

Það kom fram á fundi með greiningaraðilum í morgun að þessar viðræður eru mjög langt komnar og söluhagnaðurinn mun að líkindum koma til á þriðja ársfjórðungi. Að sögn Hafþórs Hafsteinssonar, framkvæmdastjóra Avion Aircraft Trading, mun félagið halda áfram þessari starfsemi og hún verður áfram hluti af rekstri félagsins þó meirihluti verði seldur til annara aðila. Aðspurður sagðist Hafþór gera ráð fyrir að halda áfram að stýra þessum þætti rekstursins.