Avion Group hefur tilkynnt að Avion Aircraft Trading , dótturfélag Avion Group hefur fest kaup á sjö Boeing 747-400 vélum, einni fraktvél og sex farþegavélum sem samtals kosta 28 milljarða króna.

Samhliða kaupunum hefur Avion Aircraft Trading samið við Boeing um breytingar á fjórum vélanna í fraktvélar. Fyrirhugað er að nota fraktvélarnar fimm í rekstri dótturfélags Avion Group, Air Atlanta Icelandic, og koma þær í stað eldri véla í flota félagsins.

Kaupin eru liður í endurnýjun flota Air Atlanta Icelandic og þeirri stefnu félagins að leggja megináherslu á rekstur fraktvéla.Tvær Boeing 747-400 farþegavélarnar verða notaðar í rekstri hjá öðru dótturfélagi Avion Group, Travel City, sem er hluti af Excel Airways Group.

Heildarverðmæti flugvélanna sjö og þeirra breytinga sem samið hefur verið um við Boeing er í kringum $405 milljónir Bandaríkjadala eða 28 milljarðar íslenskra króna. Kaupin eru fjármögnuð með eigin fé og lánsfé segir í tilkynningu frá Avion Group.

Sex vélar eru keyptar af All Nippon Airways (ANA) í Japan og ein vél af Cargolux í Luxembourg. Fyrsta vélin verður afhent í lok ársins.

Magnús Þorsteinsson, stjórnarformaður Avion Group sagð að kaupin væru mikilvægt skref fyrir félagið og markar áframhaldandi uppbyggingu í samræmi við stefnumörkun. Kaup á þessum vélum gerir Avion kleift að viðhalda sterkri markaðsstöðu en Air Atlanta Icelandic er leiðandi félag á sínu sviði og þessi kaup styrkja þá stöu enn frekar.

Hafþór Hafsteinsson forstjóri Air Atlanta Icelandic sagði að kaupin kæmu til með að auka hagkvæmni og væru með meiri burðargetu og lægri eldsneytis- og rekstrarkostnaði en eldri vélarnar. Kaupin styðja vel við þær átta nýju Boeing 777 fraktvélar sem keyptar voru nýlega

Air Atlanta Icelandic er leiðandi á sviði ACMI (aircraft, crew, maintenance and insurance) þjónustuleigu frakt- og farþegavéla í heiminum.

Eftir breytingar kallast vélarnar, Boeing 747-400 BCF (Boeing Converted Freighter). Fyrsta B747-400BCF verður afhent Air Atlanta Icelandic eftir breytingar í ágúst 2007 og seinni þrjár á árunum 2008, 2009 og 2010. Fraktvélin verður afhent í lok þessa árs. Farþegavélarnar verða afhentar í október 2007 og maí 2008. Verða þær nýttar til að þjónusta núverandi og nýja viðskiptavini Air Atlanta Icelandic.

Aukin eftirspurn er eftir Boeing 747-400 fraktvélum en fullhlaðin getur vélin flogið um 7.600 kílómetra vegalengd. Burðargeta vélarinnar er 113 tonn. Boeing gerir ráð fyrir því að stórar fraktvélar (með burðargetu yfir 65 tonnum) verði 31% af markaðinum fyrir 2023.