Avion Group tilkynnir undirritun kaupsamnings á fjórum Boeing 777 fraktvélum. Þessar vélar eru til viðbótar þeim fjórum sem Avion Group lagði inn pöntun fyrir í september 2005 segir í tilkynningu félagsins. Þessar nýju fraktvélar verða notaðar hjá dótturfélagi Avion Group, Air Atlanta Icelandic.

Heildarvirði fjögurra Boeing 777 fraktvélar er nálægt einum milljarði Bandaríkjadala. Listaverð átta Boeing 777 fraktvéla sem Avion Group hefur pantað á árinu er því í kringum tvo milljarða Bandaríkjadala.

"Viðskiptavinir okkar eru mjög spenntir fyrir vélunum. Það kom berlega í ljós eftir fyrstu pöntun okkar á Boeing 777 fraktvélunum að eftirspurn eftir þeim varð meiri en vonir stóðu til. Stærð og hagkvæmni þessara véla gera þær að frábærum kosti fyrir endurnýjun flota Air Atlanta Icelandic. Boeing 777 vélarnar eru góð viðbót við Boeing 747 fraktvélarnar sem eru í notkun hjá okkur og verða áfram í þjónustu viðskiptavina okkar," segir Hafþór Hafsteinsson, forstjóri Air Atlanta Icelandic um kaupin.

Air Atlanta Icelandic er stærsta ACMI-flugfélagið í heimi og veitir viðskiptavinum sínum sérsniðna þjónustu, bæði í farþega- og fraktflutningum. Átta Boeing 777 fraktvélar Avion Group koma til með að auka flutningsgetu fyrir nokkur af stærstu flugfélögum heims. Fyrstu fjórar Boeing 777 fraktvélarnar verða afhentar í byrjun febrúar 2009. Seinni vélarnar fjórar verða afhentar á árunum 2010 og 2011.

Innborganir vegna kaupanna verða fjármagnaðar með eigin fé félagsins. Þegar líður að afhendingu og greiðslu eftirstöðva kaupverðsins verður fjármögnun þeirra boðin út.