Flutningasamstæðan Avion Group hefur samþykkt kaup á 70% hlut í breska flutningalausna fyrirtækinu Tech-Log, sagði Magnús Stephensen, framkvæmdastjóri viðskipta- og þróunarsviðs félagsins, í samtali við Viðskiptablaðið í gær.

Hann sagði kaupverðið trúnaðarmál og að kaupin verði fjármögnuð með eigin fé. Tech-Log, sem er með um 20 starfsmenn í vinnu í Southampton og Manchester, mun verða dótturfélag Avia Technical Services, sem Avion Group á fyrir. Tech-Log mun verða rekið áfram undir sömu merkjum undir stjórn núverandi framkvæmdastjóra, David Erridge.

"Kaupin á Tech-Log munu styrkja viðhaldsdeild Avion Group auka þjónustuna við viðskiptavini okkar," sagði Magnús.

Avion Group stjórnar þjónustuflugfélaginu Air Atlanta, leiguflugfélaginu Excel Airways og áðurnefndu viðhaldsfélagi, Avia Technical Services. Í júní keypti félagið 94,1% hlut Burðaráss í Eimskipafélaginu og 5,9% hlut P/F Tjalds í félaginu.