Bílaleigan AVIS hefur tekið þá ákvörðun að bjóða öllum viðskiptavinum að kaupa gróðursett tré á Íslandi og binda þannig kolefni á móti þeirri losun sem rekja má til aksturs. Þessi þjónusta mun meðal annars ná til viðskiptavina AVIS, Budget og Payless á Íslandi.

Skógræktin mun sjá um gróðursetningu og skógarnir verða í eigu þjóðarinnar. Notast er við lausn sem þróuð var af fyrirtækinu TreememberMe sem gerir viðskiptavinum kleift að skoða ýmsar upplýsingar um trén á vefnum, svo sem staðsetningu, trjátegundir og kolefnisbindingu.

AVIS hefur undanfarin misseri lagt stóraukna áherslu á umhverfisvænar lausnir fyrir viðskiptavini og einnig leiðir til að minnka umhverfisáhrif af rekstri. Meðal annars má nefna að AVIS býður viðskiptavinum upp á úrval rafbíla og smárútur fyrirtækisins eru vistvænar. Stefna fyrirtækisins er að stíga enn fleiri og stærri skref á næstu misserum.