Avis bílaleiga hefur komið upp hleðslustöð fyrir rafmagnsbíla á Reykjavíkurflugvelli sem og hafið undirbúning að því að koma þeim upp fyrir framan höfuðstöðvar Avis í Holtagörðum, á Akureyri og í bænum í Keflavík.

Jafnframt hefur bílaleigan aukið hlutfall rafmagnsbíla í flota sínum og býður bílaleigan nú í fyrsta sinn upp á bæði langtíma- og skammtímaleigu á rafknúnum bílum.

„Helstu tegundirnar sem við bjóðum upp á eru Nissan Leaf með hámarksdrægni upp á 250km," segir Jóhanna Benediktsdóttir markaðsstjóri Avis.

„Þessir bílar eru mest seldu rafbílar í heimi og eintaklega ljúfir í akstri. Einnig bjóðum við upp á VW sem hafa hámarksdrægni upp á 190 km og eru liprir og þægilegir.

Einnig er gaman að minnast á Renault ZOE sem er væntanlegur sem er með hámarksdrægni upp á 400km í  einni hleðslu. Hugsunin er að einstaklingar og fyrirtæki sem vilja prófa þennan kost hafi jafna möguleika hvort sem er um skammtíma - eða langtímaleigu að ræða.“

Jóhanna segir það tiltölulega fljótlega og auðvelda leið miðað við margt annað fyrir fyrirtæki sem hafi sett sér umhverfisstefnu að skipta út eldri bílaflota.

Segir hún það tilvalið að leigja frekar en eiga fyrir marga sem eru að velta fyrir sér hvort þeir eigi að stíga skrefið til fulls yfir í rafmagnsbíla.