Talsverð verðhækkun varð á grænmeti og ávöxtum í apríl samkvæmt verðlagsvísitölu Hagstofunnar sem birt var í vikunni. Verðbólguskot hefur þó enn ekki látið á sér kræla en verðbólga mældist 2,2% í apríl en var 2,1% í mars.

Nam verðhækkunin á ólíkum undirliðum grænmetis og ávaxta frá 4% og upp í 37% en könnunin er alla jafna gerð um miðjan mánuðinn.

Í verðlagskönnun ASÍ frá 21. apríl kom fram að verð á avókadó og rauðri papriku hafði hækkað um allt að 70% frá verðkönnun í febrúar. Á móti lækkar verð á mjólkurvörum og fiski lítillega. Í heild hækkar því verð á mat um 1,5% milli mánaða samkvæmt Hagstofunni. Þá lækkar bensínverð um 4,5%.

Samkomubann, ferðatakmarkanir og lokanir hafa flækt mælingar nokkuð. Í þeim tilfellum þar sem þjónusta var ekki í boði, til að mynda hjá hárgreiðslustofum, tannlæknum, sjúkraþjálfun var verðmæling marsmánaðar látin gilda.