*

sunnudagur, 16. maí 2021
Innlent 27. ágúst 2019 15:15

Ávöxtun af húsleigu lækkað frá 2014

Meðalávöxtun af húsleigu var 8% árið 2014 en síðustu 12 mánuði nemur hún 6,8%.

Ritstjórn
Hæsta ávöxtun þriggja herbergja íbúða er í Breiðholti (8%) en lægst í vesturhluta Reykjavíkur (6%) i tilfelli fyrirtækja.
Haraldur Guðjónsson

Samanburður á meðalávöxtun eftir tegund leigusala leiðir í ljós að ávöxtun hefur smám saman farið lækkandi frá árinu 2014. Þetta kemur fram í Hagsjá frá hagfræðideild Landsbankans og byggir á nýlegum tölum frá Þjóðskrá um ávöxtun af húsaleigu síðastliðna 12 mánuði. 

Hámarki virðist hafa verið náð árið 2014 þegar ávöxtun einstaklinga og fyrirtækja var í kringum 8% og hefur síðan þá farið lækkandi. Meðalávöxtun fyrirtækja var 7% síðastliðna 12 mánuði og meðalávöxtun einstaklinga 6,7% og eru þessar ávöxtunartölur nær óbreyttar frá fyrra ári.

„Af þeim tæplega 5.400 samningum sem eru í úttekt Þjóðskrár í ár var tæplega helmingur vegna útleigu þriggja herbergja íbúðar. Í tilfelli fyrirtækja reyndist ávöxtun slíkrar íbúðar, á virkustu svæðunum, vera hæst í Breiðholti (8%) og lægst í vesturhluta Reykjavíkur (6%). Í tilfelli einstaklinga var ávöxtunin hæst í Reykjanesbæ (tæp 8%) og lægst í vesturhluta Reykjavíkur (6%).

Útreikningar Þjóðskrár á ávöxtun eru mjög einfaldir. Leiguverð samkvæmt þinglýstum leigusamningum er borið saman við fasteignamat viðkomandi eignar og þannig fengin ávöxtun á ársgrundvelli. Engin tilraun er gerð til þess að áætla aðra kostnaðarliði við leigustarfsemi og er það ekki heldur gert hér. En gera má ráð fyrir því að rekstrarkostnaður sé mjög ólíkur eftir leigusölum og svæðum,” segir í Hagsjá Landsbankans.