*

laugardagur, 12. júní 2021
Innlent 26. maí 2018 12:01

Ávöxtun stærstu lífeyrisjóðanna eykst

Fjárfestingatekjur fimm stærstu lífeyrissjóðanna námu 176 milljörðum króna í fyrra og hækka um nær 150 milljarða á milli ára.

Ingvar Haraldsson
Haraldur Jónasson

Hreinar fjárfestingatekjur fimm stærstu lífeyrissjóða landsins námu 176 milljörðum króna en þær voru 28 milljarðar króna árið 2016. Hrein raunávöxtun sjóðanna, það er raunávöxtun að teknu tilliti til rekstrarkostnaðar, nam 5,5% á síðasta ári. Raunávöxtun samtryggingardeilda lífeyrissjóðakerfisins í heild nam um 5% á síðasta ári en var 0,04% árið 2016 að því er fram kemur í ársskýrslu Fjármálaeftirlitsins.

Ávöxtun sjóðanna 4,2% síðustu 25 ár

Ávöxtun lífeyrissjóðakerfisins hefur verið töluvert sveiflukennd. Raunávöxtun samtryggingardeilda síðastliðinn aldarfjórðung nemur að meðaltali 4,2%. Síðastliðinn áratug nemur raunávöxtunin að meðaltali ekki nema 1,2% og munar þar mestu um 22% neikvæða raunávöxtun  árið 2008. Raunávöxtunin síðustu fimm ár nemur að meðaltali 5,1%.

Nokkru munar á ávöxtun sjóðanna undanfarin ár. Af stærstu lífeyrissjóðunum hefur raunávöxtun samtryggingardeildar Lífeyrissjóðs verslunarmanna verið hæst og numið 5,9% síðustu fimm ár og 1,7% síðastliðinn áratug. Raunávöxtun lífeyrissjóðanna Gildis og Birtu er hins vegar 0,5% síðasta áratuginn en 5,4% síðustu fimm ár hjá Gildi og 4,9% hjá Birtu. Hjá Stapa nemur raunávöxtun síðustu fimm ára 4% en 1,2% síðastliðinn áratug. Þá nemur raunávöxtun Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) 5,6% síðustu fimm ár og 1,4% síðastliðinn áratug.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.