Stýrivaxtahækkun Seðlabankans í byrjun mánaðarins hafði mikil áhrif á ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði. Krafa allra markflokka hafði nýlega náð sögulegu hámarki þegar stýrivextir voru hækkaðir og allir flokkar hækkuðu enn frekar í kjölfarið. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýju riti greiningardeildar Landsbankans, sem hefur hækkað stýrivaxtaspá sína og hefur sú hækkun áhrif á spá um þróun ávöxtunarkröfu skuldabréfa, sérstaklega til skamms tíma.

Spá einhverri lækkun þegar nær dregur áramótum

Greiningardeildin segir litla eftirspurn eftir millilöngu íbúðabréfunum, HFF24 og HFF34, og ávöxtunarkrafa þessara flokka sé nú nokkru hærri en samræmist væntingum deildarinnar um þróun verðbólgu og stýrivaxta.  Stýrivaxtaferillinn er sagður hafa hliðrast upp vegna væntinga um að stýrivextir lækki fyrst eftir mitt næsta ár, en þó er spáð einhverri lækkun ávöxtunarkröfu íbúðabréfa þegar nær dregur áramótum.

Verðbólguálag til fjögurra ára er sagt hafa hækkað þó nokkuð frá því það náði tímabundnu lágmarki, 3,1%, um síðustu mánaðamót. Verðbólguálagið er nú ríflega 3,5% en greiningardeild Landsbankans telur að það muni lækka þegar líður á næsta ár.