Síðustu tvo daga hefur ávöxtunarkrafa íbúðabréfa lækkað nokkuð, í ansi líflegum viðskiptum, segir greiningardeild Glitnis.

?Óhætt er að segja að krafan hafi flökt nokkuð frá byrjun árs. Eftir töluverða hækkun hennar fyrstu daga ársins, sérstaklega á styttri endanum, hafa verið lækkanir síðustu tvo daga. Þær hafa þó verið meiri á lengri endanum,? segir greiningardeild sem spáir áframhaldandi flökti á kröfunni.

?Í spá okkar sem kom út á mánudaginn gerum við ráð fyrir áframhaldandi flökti á kröfunni næstu daga, á 10-25 bili í styttri flokkunum og 5-15 punkta bili í lengri flokkunum. Við gerum þó ráð fyrir lítilsháttar kröfulækkun í mánuðinum.

Ljóst er að ekki þarf mikið til að hreyfa við markaðnum en viðskipti gærdagsins með flokk HFF 44 námu tæpum tveimur milljörðum króna og krafan lækkaði um 11 punkta. Töluvert meiri viðskipti voru með lengri flokkana en þá styttri. Við opnun markaðar í morgun hækkaði krafan á öllum flokkum íbúðabréfa,? segir greiningardeildin.