Mikil viðbrögð voru á skuldabréfamarkaði í morgun við vaxtahækkun Seðlabankans, að sögn greiningardeildar Glitnis.

Við hádegi nam veltan um 5,2 milljörðum króna. Skiptist veltan þannig að 3,6 milljarða króna eru verðtryggð bréf og 1,5 milljarðar eru óverðtryggð bréf.

?Ávöxtunarkrafa bæði verðtryggðra og óverðtryggðra bréfa hefur lækkað það sem af er degi. Lækkun kröfunnar er mest á skuldabréfum með stuttan binditíma," segir greiningardeildin.

Ávöxtunarkrafa tveggja stystu flokka íbúðabréfa hefur lækkað um 6 punkta og ávöxtunarkrafa ríkisbréfa lækkað um 2-6 punkta, meira á styttri flokknum.

"Viðbrögð á skuldabréfamarkaði ganga þvert gegn því sem Seðlabankinn vill sjá. Af þeim mætti ráða að einhverjir fjárfestar hafi veðjað á meiri vaxtahækkun en raunin varð. Verður það hins vegar að teljast ólíklegt en spár greiningaraðila lágu á bilinu 50-75 punkta hækkun," segir greiningardeildin og bætir við:

"Taka verður þó mið af því að erfitt er að ráða í þróun dagsins á skuldabréfamarkaði þegar ekki er liðinn lengri tími frá tilkynningu og rökstuðningi vaxtaákvörðunarinnar."