Ávöxtunarkrafa skuldabréfa, hvort sem um er að ræða verðtryggð eða óverðtryggð bréf, hefur hækkað að undanförnu, að sögn greiningardeildar Glitnis. Ávöxtunarkrafa verðtryggðra skuldbréfa hækkað um 11 til 23 punkta frá því á mánudaginn í síðustu viku, en hafa verður í huga að það eru einungis fjórir viðskiptadagar.

Hækkunin er mest á stysta flokki íbúðabréfa, HFF14. Ávöxtunarkrafa ríkisbréfa hefur ennfremur hækkað verulega, eða um 35 punkta á styttri flokknum og 27 punkta á lengri flokknum.

"Rekja má hluta hækkunar á ávöxtunarkröfunni til aukinna væntinga um 75 punkta hækkun stýrivaxta á næsta vaxtaákvörðunardegi sem er 18. maí næstkomandi. Er það ekki síst tilkomið vegna skarprar veikingar krónunnar að undanförnu, en gengi hennar hefur lækkað um 14% frá síðustu vaxtahækkun Seðlabankans," segir greiningardeildin og bætir því við að hækkunin komi ekki óvart því greiningardeildin spáði töluverðri hækkun á ávöxtunarkröfu þeirra á öðrum ársfjórðungi, meðal annars vegna þess hún gerði ráð fyrir hækkun stýrivaxta á tímabilinu.

?Einnig gerðum við ráð fyrir að vænt hækkun stýrivaxta myndi hafa áhrif til hækkunar ávöxtunarkröfu styttri flokka íbúðabréfa. Hins vegar er krafa lengri verðtryggðra bréfa nokkuð hærri en við gerðum ráð fyrir, ? segir greiningardeildin og telur að hækkun ávöxtunarkröfu þeirra gangi að einhverju leyti til baka á næstunni, einkum í ljósi vaxandi verðbólguvæntinga.