Ávöxtunarkrafa allra verðtryggðra bréfa hækkaði talsvert í dag og hækkaði krafa HFF14 mest eða um 16 punkta og stóð í 3,98% við lokun markaða í dag, segir greiningardeild Kaupþings.

Kröfur annarra flokka íbúðabréfa hækkuðu minna eða um 2-7 punkta og lá verðtryggða krafan á bilinu 3,98-4,17% í lok dags.

Viðskipti á skuldabréfamarkaði námu alls 17 milljörðum króna. Þar af námu viðskipti með stysta flokk íbúðabréfa, HFF14, 12,5 milljörðum, segir greiningardeild Kaupþings banka.

Það er um 30% af markaðsvirði flokksins, sem er 42,8 milljarðar.

Eins og sagt var frá í gær, mælir greiningardeildin mælir með kaupum á verðtryggðum skuldabréfum í ljósi dökkra verðbólguhorfa á næstu mánuðum.

Lækkunin sem varð á ávöxtunarkröfu verðtryggðra bréfa í kjölfarið á birtingu verðbólgutalna á fimmtudaginn gekk því að einhverju leyti til baka í dag.

Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisbréfa lækkaði um 0-3 punkta eftir að hafa hækkað um 16-33 punkta síðustu tvo viðskiptadagana á undan, segir greiningardeildin.

Í lok dags var óverðtryggða krafan á bilinu 8,4%-9,2% sem verður að teljast úr takti við stöðu og vænta þróun stýrivaxta sem standa núna í 10,75%, segir greiningardeildin.

Greiningadeildin telur að óverðtryggða krafan hækki töluvert á næstu mánuðum, sér í lagi ef ekki verður meira um útgáfur erlendra aðila á skuldabréfum í íslenskum krónum.

HFF14 er minnsti flokkur íbúðabréfa en markaðsvirði hinna flokkanna liggur á bilinu 104,5-137,9 milljarðar króna.