Í Morgunkorni Glitnis segir að ávöxtunarkrafa verðtryggðra bréfa og óverðtryggðra hafi hækkaði mikið í gær í kjölfar vaxtahækkunar Seðlabankans um 0,45 prósentustig. Krafan á íbúðabréfum hækkaði um 13-40 punkta og krafa ríkisbréfa hækkaði um 11-45 punkta.

Mikil velta var með skuldabréf í gær og var dagurinn annar mesti veltudagur á skuldabréfamarkaði frá upphafi. Það sem af er morgni hafa hræringar haldið áfram í töluverðum viðskiptum. Krafa bæði verðtryggðra og óverðtryggðra bréfa hefur haldið áfram að hækka það sem af er dags. Krafa íbúðabréfa hefur hækkað um 4-6 punkta og krafa ríkisbréfa um 5-13 punkta. Þegar þetta er ritað (11:30) er krafa HFF14 8,13% og krafa HFF44 5,14%. Þá er krafa RIKB081212 14,29% og RIKB13 10,37%.

Sá stýrivaxtaferill sem Seðlabankinn telur nauðsynlegan til að verðbólgumarkmiði megi nást á ásættanlegum tíma liggur nú bæði hærra og helst hár lengur en markaðurinn var með væntingar um. Rekja má kröfuhækkunina í gær og í dag til þessa. Jafnframt má búast við að krafan muni haldast há lengur en áður var reiknað með. Kröfulækkun sem spáð var á næsta ári er því líkleg til að vera síðar í tíma en áður var talið.