Ávöxtunarkrafa verðtryggðra skuldabréfa lækkaði töluvert í dag eða um 9-15 punkta eftir að hafa lækkað um 4-18 punkta í gær, segir greiningardeild Kaupþings banka.

Fyrstu viðbrögð við birtingu verðbólgutalna í morgun voru að krafan hækkaði en gekk fljótlega til baka og hefur nú lækkað mikið fyrir lok dags.

Það má velta fyrir sér hvort að aðilar á markaði hafi túlkað verðbólgutölurnar sem birtust í dag sem vísbendingu um að Seðlabankinn muni hækka stýrivexti minna en þeir töldu áður, segir greiningardeildin.

Mikil viðskipti lágu að baki lækkun kröfunnar í dag eða sem nemur 11,6 milljörðum.

Verðtryggða krafan er á bilinu 4,30% til 4,52%.