Í nýjustu markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa hf. er spekúlerað í stöðuna á skuldabréfamarkaðnum sem hefur verið líflegur síðustu dægrin.

"Verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 1,5% í vikunni og óverðtryggð skuldabréf um 1,1%. Öll ríkistryggð skuldabréf hækkuðu í verði. Dómur hæstaréttar um  lögmæti gengistryggðra lána jók á óvissu um stöðu bankanna og virðist sem fjárfestar séu að færa sig úr innlánum yfir í ríkistryggð skuldabréf.

Ávöxtunarkrafa allra íbúðabréfa er nú komin undir 3,5%, sem er oft talin vera neðstu mörk hennar.  Í lok vikunnar var ávöxtunarkrafan um 3,3%  á öllum flokkum, en rétt undir 3% á stystu bréfunum. Erfitt er að spá í framhaldið, markaðurinn einkennist af óvissu um stöðu bankanna og aukinni ásókn í ríkistryggðar eignir," segir í markaðsfréttum ÍV.