Ekki á af Ítalíu að ganga þessa dagana, því þrátt fyrir að athyglin í dag hafi öll verið á Grikklandi og björgunaraðgerðum ESB hélt ávöxtunarkrafan á ítölsk ríkisskuldaskuldabréf áfram að hækka og hefur munurinn á þýskum og ítölskum bréfum ekki verið meiri síðan Ítalía tók upp evruna. Munurinn á ávöxtunarkröfu á tíu ára ítölskum bréfum og sambærilegum þýskum bréfum fór yfir 4,5 prósentustig. Þetta er mikilvægur áfangi því samkvæmt frétt Financial Times getur þetta verið grundvöllur veðkalla á þá sem fjárfest hafa í ítölskum skuldabréfum.

Þá er athyglisvert að það hafði lítil áhrif til að róa fjárfesta að evrópski seðlabankinn keypti ítölsk ríkisskuldabréf fyrir fimm milljarða evra í gær. Reyndar hefur FT það eftir ítölskum skuldabréfamiðlara að áður en seðlabankinn greip inn í hafi ekki í raun verið markaður með bréfin í gær. Enginn hafi viljað kaupa ítölsk ríkisskuldabréf og því hafi enginn verðmyndun verið.

Kauphöllin í Mílanó.
Kauphöllin í Mílanó.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)
Kauphöllin í Mílanó.