Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til lengri tíma hefur sveiflast mikið frá upphafi septembermánaðar. Í byrjun mánaðarins var krafan hærri en hún hafði verið um mjög langt skeið og tók síðan að lækka hægt og bítandi fram að vaxtaákvörðun Seðlabankans 21. september. Þá byrjaði krafan að lækka mun hraðar og er hún nú á svipuðum slóðum og hún var fyrir vaxtaákvörðunina 17. ágúst.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka og þar segir að verðbólguálag til lengri tíma hafi lækkað en það fæst með því að bera saman ávöxtunarkröfu verðtryggðra og óverðtryggðra lána með svipaðan líftíma. Þá segir jafnframt að peningastefnunefnd hafi áhrif á markaðinn með þeim skilaboðum sem hún sendi.

„Sá nefndarmaður sem halda vildi til streitu vaxtahækkun í september hafði hins vegar m.a. áhyggjur af því að óbreyttir vextir þá myndu grafa undan þeim skilaboðum sem send voru í ágúst. Miðað við þróun á markaði má ætla að áhyggjur hans hafi verið á rökum reistar, þótt á hinn bóginn megi líka gera því skóna að markaðir hafi brugðist full sterkt við vaxtaákvörðuninni í ágúst," segir í Morgunkorni.