Í stjórnarsáttmálanum er fjallað um að fjölga þurfi ávöxtunarmöguleikum lífeyrissjóðanna og möguleikum til aukinnar þátttöku í innviðafjárfestingum og grænum fjárfestingum. Einnig hefur það verið lengi til skoðunar hvort auka þurfi heimildir lífeyrissjóðanna til fjárfestinga erlendis og auka þannig áhættudreifingu þeirra utan Íslands. Þá lét Ásgeir Jónsson hafa eftir sér í erindi sem hann flutti á ráðstefnu á vegum IPE Iceland fyrr í haust að setja ætti 50% gólf í stað þaks á erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna.

Bjarni segir að rýmka þurfi kosti lífeyrissjóðanna til fjárfestinga innanlands og mögulega erlendis. „Það sem er verið að horfa til í stjórnarsáttmálanum er sú staðreynd að í hagkerfi sem er um þrjú til fjögur þúsund milljarðar að stærð þá erum við með lífeyrissjóðakerfi sem er með rúmlega fimm þúsund milljarða í eignir. Það eru vísbendingar um að sjóðirnir þurfi stærri föt til að vaxa upp í en í því felst að þeir gætu til að mynda þurft auknar heimildir til fjárfestinga erlendis. Það er mikil breyting að fara úr því að vera með þak á fjárfestingum yfir í að tala um gólf og því er mikilvægt að vanda allar breytingar."

„Grænu fjárfestingarnar eru dæmi um að við viljum að þetta mikla fjármagn sem er í hagkerfinu geti nýst til þess að styðja við orkuskiptin. Ég tel að það sé ótvíræður áhugi á því að fjárfesta í grænu enda eru mörg spennandi tækifæri þar. Nýlega innleiddum við sérstakar fyrningarreglur fyrir grænar fjárfestingar sem gætu gagnast lífeyrissjóðunum," segir Bjarni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .