Staða ríkissjóðs á næstu árum verður mjög brothætt. Auk gífurlegrar skuldsetningar vegna afleiðinga bankahrunsins eru aðrir stórir óvissuþættir. Þannig segir til dæmis í fjárlagafrumvarpinu að B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga stefni að óbreyttu í þrot á árinu 2027.

Ófjármagnaðar skuldbindingar ríkissjóðs vegna þessara lífeyrissjóða námu  um það bil 390 milljörðum króna við síðustu áramót. Við það að sjóðirnir tæmast myndi ríkissjóður sem bakábyrgðaraðili þurfa að greiða árlega u.þ.b. 20 milljarða króna að meðaltali til þeirra næsta áratuginn frá og með 2026 en eftir það færu greiðslurnar lækkandi. Í frumvarpinu segir að til viðbótar komi greiðslur vegna lífeyrishækkana sem árlega munu nema u.þ.b. 13 milljörðum króna á  þessu tímabili en eru í dag um 7 milljarðar króna.

Í öðru lagi þurfi að hafa í huga gríðarmiklar útistandandi ríkisábyrgðir. Veikasti hlekkurinn í þeim efnum sé Íbúðalánasjóður en ríkisábyrgðir vegna hans nema nálægt 940 milljörðum króna.  Frá árinu 2010 hefur þurft að afskrifa í rekstrarreikningi ríkissjóðs um 40 milljarða króna eiginfjárframlag til Íbúðalánasjóðs.