B-hlutabréf í Fossum mörkuðum sem aðeins buðust völdum starfsmönnum og greiddu arð úr öllu samræmi við hlutafjárframlag teljast kaupaukar, og fóru langt umfram leyfileg mörk þeirra.

Þessa túlkun Seðlabankans staðfesti Héraðsdómur Reykjavíkur í gær, í máli sem verðbréfafyrirtækið höfðaði gegn bankanum til að fá ákvörðun hans ógilda . Seðlabankinn hafði sektað Fossa um 10,5 milljónir vegna málsins.

B-hluthafar Fossa fengu á árunum 2016-2019 alls 345 milljónir í arðgreiðslur, en laun þeirra á sama tímabili námu ríflega 300 milljónum. Leyfilegt hámark kaupauka er 25% af árslaunum.

B-hlutabréfunum voru hinsvegar settar miklar skorður, meðal annars mátti ekki framselja þau án samþykkis stjórnar, sem auk þess gat innkallað þau að vild.

Dómurinn féllst sem fyrr segir á röksemdir Seðlabankans í málinu, og staðfesti bæði túlkun hans og stjórnvaldssektina.