Skemmtistaðurinn B5 hagnaðist um 11 milljónir króna árið 2015 samkvæmt ársreikningi félagsins. Staðurinn, sem er við Bankastræti 5, er einn sá allra vinsælasti í Reykjavík. Hagnaðurinn hefur þó dregist verulega saman, en árið 2014 hagnaðist félagið um rúmar 27 milljónir.

Samkvæmt efnahagsreikningi nema eignir félagsins 26,7 milljónum króna. Bókfært eigið fé í áárslok 2015 var um 12,27 milljónir. Sjóðir félagsins minnkuðu talsvert milli 2014 og 2015. Veltufjármunir félagsins námu rúmum 79 milljónum króna árið 2014, en einungis 25 milljónum árið 2015.

Mest breyting var á stöðu sjóða og bankainnistæða. Eigendur félagsins hafa ákveðið að greiða sér arð og var heildar arður ársins 2015 sléttar 57 milljónir.

Hlutafé B5 ehf. er skráð 500.000 krónur, sem er lágmarks hlutafé fyrir íslenskt einkahlutafélag. Skuldir félagsins hafa einnig lækkað, en árið 2014 voru skuldirnar tæplega 24 milljónir, en árið 2015 voru þær um 14,5 milljónir.

Um 20 starfsmenn starfa að meðaltali hjá félaginu.