Breska British Airways (BA) ætlar að stofna sérstakt dótturfélag sem mun bjóða upp á beint flug á milli meginlands Evrópu og New York, að því er fram kemur í frétt Dow Jones fréttaveitunnar.

Ákvörðun BA er tekin í því augnamiði að nýta sér þann ávinning sem hlýst af samkomulagi Evrópusambandsins og Bandaríkjanna um aukið frjálsræði í flugi yfir Atlantshafið, sem tekur gildi í apríl. Hið nýja dótturfélag BA, sem verður kallað "OpenSkies", mun hefja flugferðir frá New York til annað hvort Brussel eða Parísar frá og með júní.

Núverandi löggjöf heimilar aðeins evrópskum flugfélögum að fljúga beint til Bandaríkjanna frá sínu eigin heimalandi.