Breska flugfélagið British Airways og ástralska flugfélaið Qantas hafa slitið samrunaviðræðum félaganna sem hófust um mánaðarmótin síðustu.

Í sameiginlegri tilkynningu frá félögunum kemur fram að þrátt fyrir að félögin telji, til langs tíma litið, hagkvæmt að sameinast hafi þeim ekki tekist að komast að samkomulagi nú sem væri viðunandi fyrir báða aðila.

Að sögn fréttavefs BBC eru nokkrir þættir sem koma í veg fyrir sameiningu félaganna.

Í fyrsta lagi var hugmyndin sú að sameinað félag yrði skráð í kauphöllum bæði í Lundúnum og Sydney. En samkvæmt áströlskum lögum þarf Qantas að eiga meirihluta í félaginu auk þess sem höfuðstöðvar félagsins þurfa að vera í Ástralíu. Þetta kemur til þrátt fyrir að áströlsk stjórnvöld hafi slakað á reglum sínum.

Þrátt fyrir að Qantas sé stærra flugfélag, að markaðsverðmæti, var þetta eitthvað sem British Airways gat ekki sætt sig við og á því strönduðu viðræðurnar. Bretarnir voru að vona að áströlsk yfirvöld myndu slaka enn frekar á reglum sínum.

Annað atriði sem varð til þess að viðræður strönduðu er að lífeyrisskuldbindingar British Airways eru gífurlegar að sögn BBC. Þá hefur félagið einnig átt í yfirtökuviðræðum á spænska flugfélaginu Iberia en Qantas hafði þegar lýst því yfir að það vildi ekkert með spænska flugfélagið hafa.