Stærsti umsjónaraðili flugvalla á Bretlandi, BAA, hefur lögsótt írska flugfélagið Ryanair vegna vanskila á greiðslum flugfélagsins fyrir lendingargjald.

Ryanair hefur ekki greitt uppsett verð fyrir notkun Stansted flugvallar. BAA hækkaði verðið á afnotum flugvallaraðstöðunnar í apríl 2007, en Ryanair sögðust ekki ætla að greiða verðhækkunina.

Í frétt BBC um málið er haft eftir talsmanni BAA: „Ólíkt Ryanair rekur BAA fyrirtæki sitt ekki í fjölmiðlum. Málið er í höndum lögmanna og því er óviðeigandi að koma með yfirlýsingar á þessu stigi málsins.“

Einnig tók talsmaður BAA fram að Ryanair hefði fengið afslátt af flugvallargjaldinu fram til 1. apríl ársins 2007.