Þýska fyrirtækjasamsteypan Baader eignaðist 60% hlut í Skaganum 3X þegar umrædd kaup voru endanlega í höfn undir lok febrúar á þessu ári. Þetta kemur fram í tilkynningu um hækkun á hlutafé sem félagið Skaginn 3X Holding ehf. skilaði inn til fyrirtækjaskrár Skattsins. Keypti Baader 60% hlutinn af félaginu I.Á. Hönnun ehf., sem er í eigu Ingólfs Árnasonar, forstjóra Skagans 3X, og Guðrúnar Agnesar Sveinsdóttur, eiginkonu hans. Áður var Skaginn 3X í 100% eigu félags þeirra hjóna en eftir viðskiptin á félagið 40% hlut í Skaganum 3X.

Í tilkynningunni kemur fram að á fundi sem haldinn var þann 30. mars sl. hafi verið ráðist í hlutafjárhækkun með útgáfu 348.394 nýrra hluta. Fyrrnefnt félag Ingólfs og Guðrúnar, I.Á. Hönnun, skráði sig fyrir 139.358 hlutum, eða sem nemur 40% af nýútgefnum hlutum, og greiddi fyrir þá tæplega 119 milljónir króna. Baader Iceland Holding ehf., íslenskt dótturfélag Baader-samsteypunnar, skráði sig fyrir eftirstandandi 60%, alls 209.036 hlutum, og pungaði út ríflega 178 milljónum króna fyrir vikið. Fyrir hlutafjárhækkunina nam hlutafé Skagans 3X 13.032.654 en eftir hækkunina stóð það í 13.381.048. Þegar greint var frá kaupunum var sagt að Baader hefði keypt meirihlutann í Skaganum 3X, en ofangreind 60/40 skipting hefur ekki komið fram opinberlega fyrr en nú. Í apríl greindi Viðskiptablaðið frá því að Baader-samsteypan hefði lagt rúmlega 1.280 milljónir króna í ofangreint Baader Iceland Holding skömmu áður en kaupin gengu í gegn. Kaupverð hefur ekki verið gefið upp en viðbúið er að það sé hærra en milljónirnar 1.280.

Rótgróið og risavaxið fjölskyldufyrirtæki

Baader-samsteypan er fjölskyldufyrirtæki með höfuðstöðvar í Lübeck í nyrsta sambandsríki Þýskalands, Schleswig-Holstein, en það starfrækir þjónustustöðvar og dótturfyrirtæki í meira en 70 löndum og nær sölunet þess yfir 100 lönd í sex heimsálfum. Baader hefur framleitt vélar til fiskvinnslu frá árinu 1919, og flæðilínur síðan 1969. Félagið sameinaðist danska fyrirtækinu Linco, sem hefur framleitt vinnslulínur fyrir fuglakjöt frá árinu 1944, árið 2007.

Petra Baader, forstjóri Baadersamsteypunnar, situr í stjórn Skagans 3X sem og í stjórnum dótturfélaga Baader hér á landi, Baader Iceland Holding og Baader Ísland.

55% tekjusamdráttur vegna faraldursins

Í mars sl. greindi Viðskiptablaðið frá því að tekjur I.Á. Hönnunar, sem áður var móðurfélag Skagans 3X, hefðu dregist saman um 55% á fyrstu átta mánuðum ársins 2020 miðað við sama tímabil árið áður vegna heimsfaraldursins. Kom þetta fram í yfirlýsingu stjórnar með ársreikningi félagsins fyrir reikningsárið 2019. Þar var jafnframt tekið fram að stjórnendur teldu fyrst og fremst um tímabundinn samdrátt að ræða og hliðrun á tekjum. Samstæða Skagans 3X velti 7,1 milljarði króna árið 2019 miðað við tæplega 8,7 milljarða króna veltu árið 2018. Þá dróst hagnaður félagsins saman úr 740 milljónum í 234 milljónir króna milli ára. Eignir félagsins námu 7,1 milljarði í árslok 2019 og eigið fé 3,4 milljörðum.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .