Báðar 117 tonna Catarpillar risa-jarðýturnar sem vélasvið Heklu flutti hingað til lands 2007 hafa nú verið seldar úr landi. Fyrri vélin sem hingað kom í mars 2007 og nefnd var Vatnsskarðsskessan fór úr landi til nýrra eigenda fyrir áramót. Hin vélin sem kölluð var Ingólfsfjallsskessan kom í nóvember 2007 og fór úr landi nú eftir áramótin.

Ásmundur Jónsson framkvæmdastjóri vélasviðs Heklu segir að ástæða sölu vélanna úr landi sé mikill samdráttur í jarðefnasölu í kjölfar efnahagshrunsins hér á landi.

Það var fyrirtækið Alexander Ólafssyni ehf. sem rekur svokallaðar Vatnsskarðsnámur sunnan Hafnarfjarðar sem keypti fyrri vélina sem kölluð var Vatnsskarðsskessan. Kári Jónsson í Fossvélum ehf. á Selfossi keypti Ingólfsfjallsskessuna sem notuð var til að ryðja malarefni fram af Ingólfsfjalli. Mun fyrri vélin hafa verið seld til Ástralíu, en hin til Evrópu.

Báðar vélarnar eru af gerðinni Caterpillar D11R og vega hvor um sig 117 tonn með öllum búnaði. Kostuðu þær sem svarar um 1.000 krónum á kílóið, eða nálægt 117 milljónum stykkið á þáverandi gengi.

Þetta eru stærstu jarðýtur sem framleiddar eru af Caterpillar og vakti það undrun sölumanna Caterpillar í Bandaríkjunum þegar fyrri pöntunin á slíkri vél kom frá Íslandi. Spurðu þeir hvort menn ætluðu virkilega að sökkva landinu.

„Það var nú talað um þetta sem „mission impossible" að markaðssetja þessa jarðýtu hér á landi, " sagði Ásmundur Jónsson framkvæmdastjóri vélasviðs Heklu við afhendingu á Vatnsskarðsskessunni. „Það vakti þó enn meiri undrun þegar önnur pöntun barst á slíkri vél og kom mönnum algerlega í opna skjöldu."

Sem dæmi um stærð og kraft Caterpillar D11R er afl vélarinnar er 698kW, eða 935 hestöfl undir fullum afköstum, en svokallað "Flywheel Power" er 580 hestöfl. Ripperinn, sem er með einni tönn vegur með glussatjökkum og öllu rúm 10 tonn. Þá er ýtutönnin ekki veigaminni, en hún vegur ein og sér 18,8 tonn og getur rutt 34,4 rúmmetrum af jarðvegi á undan sér. Þá má geta þess að olíutankurinn tekur hvorki meira né minna en 1.609 lítra.