Hvorki LL08 ehf. né Urriðaholt ehf. fékk nokkuð fyrir sinn snúð í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir helgi. Félögin höfðu deilt um uppgjör við byggingu fjölbýlishúsa.

Í desember 2013 seldi Urriðaholt félaginu LL08, en það er í eigu GAMMA, byggingaréttindi að lóðum nr. 8-12 og 14-18 við Holtsveg í Urriðaholti. Síðar keypti félagið byggingaréttindi að Holtsvegi 2-6 af sama aðila. Samanlagt kaupverð var tæpar 300 milljónir króna. Seljandi tók á sig að annast jarðvinnu við lóðir 8-12 og 14-18. og gerði áætlun ráð fyrir rúmlega 24 milljóna kostnaði vegna þess. Sá reyndist eilítið meiri en á efndafundi í júní 2014 greiddi LL08 29 milljónir vegna þeirra.

Bitbein málsins voru jarðvegsframkvæmdir við byggingarnar. Er LL08 hugðist hefja framkvæmdir kom í ljós að grunnstæði húsanna hefði ekki verið í samræmi við hönnun þeirra. Of mikið magn jarðvegs hefði verið sprengt líkt og gert hefði verið ráð fyrir kjallara undir þeim. Engin áform höfðu verið um slíkt.

Sökum þessa töfðust framkvæmdir við botnplötu byggingarinnar en Urriðaholt hafði tekið á sig að annast þær.

LL08 krafðist þess í málinu að Urriðaholt greiddi sér rúmar 58 milljónir til greiðslu kostnaðar vegna jarðvinnu umfram gerða samninga og hönnunarforsendur. Að auki var krafist greiðslu vegna kostnaðar við að bæta úr þeim göllum sem reynt hafi á jarðvinnunni. Urriðaholt höfðaði á móti gagnsök og krafðist greiðslu á tæplega 40 milljónum í dagsektir, 100 þúsund krónur fyrir hvern dag sem það tefðist fram yfir 1. október 2015 að steypa botnplötu.

Að mati héraðsdómsins, sem var fjölskipaður í málinu, áttu báðir aðilar nokkra sök á því hvernig atvik urðu í málinu. Voru báðir aðilar því sýknaðir af sök hins og málskostnaður látinn niður falla.