Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins samþykkti í dag þingsályktunartillögu um að draga til baka umsókn að Evrópusambandinu.

Tillögunni verður dreift á Alþingi strax á næstu dögum. „Hún kemur væntanlega fram núna eftir helgi. Hún er samþykkt í báðum þingflokkum stjórnarflokkanna og verður væntanlega lögð fram strax eftir helgi,“ segir Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir vill ekki segja til um það hvort einhverjir hafi lýst sig andsnúnir tillögunni á fundi þingflokks í dag. „Í þingflokki Sjálfstæðisflokksins hvílir trúnaður um það sem fram fer á fundum. En þingflokkurinn afgreiddi þeta út,“ segir Ragnheiður.