Ekkert neyðarkall barst frá flugvél Air Asia áður hún hvarf í nótt. Rétt áður en flugvélin og samband rofnaði við vélina höfðu flugmenn hennar beðið um leyfi til að hækka flugið úr 32 þúsund fetum í 38 þúsund vegna ókyrrðar í lofti.

Flugvélin, sem er af gerðinni Airbus A320-200, var á leiðinni frá borginni Surabaya í Indónesíu til Singapúr. Umfangsmikil leit stendur nú yfir að vélinni. Af þeim 162, sem eru um borð í flugvélinni, eru 155 flugfarþegar. Af þeim eru 138 fullorðnir og 17 börn.

Air Asia er lággjaldaflugfélag. Enn af stofnendum þess og núverandi framkvæmdastjóri er Tony Fernandes. Hann er aðaleigandi enska knattspyrnuliðsins Queens Park Rangers (QPR).

Tæpir tíu mánuðir eru síðan flugvél Malaysia Airlines hvarf á leið sinni frá Kúala Lumpur til Peking. Um borð voru 239 farþegar. Þá var flugvél frá sama flugfélagi, með 298 farþegar innanborðs, skotin niður yfir Úkraínu þann 17. júlí í sumar.