Tvö tilboð bárust í leigu á þyrlum handa Landhelgisgæslunni í útboði síðasta haust. Annað tilboðanna þótti of hátt. Í hinum tilvikinu voru áhöld um eignaraðild bjóðanda að þyrlu. Morgunblaðið segir frá því í blaði dagsins að báðum tilboðum hafi verið hafnað. Sólmundur Már Jónsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landhelgisgæslunnar, segir í samtali við blaðið það niðurstöðu síðustu útboða að engar björgunarþyrlur séu á markaðnum til leigu og sé næsta skref að óska eftir heimild til að kaupa þyrlu.

Blaðið rifjar upp að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra vildi endurskoða áform um að leigja tvær björgunarþyrlur fyrir Landhelgisgæsluna og að hann teldi hagkvæmara fyrir skattgreiðendur að kaupa tvær. Ein björgunarþyrla er talin kosta um tvo milljarða króna. Landhelgisgæslan hefur þrjár þyrlur til umráða. TF-SYN verður skilað í haust og leigutími TF-GNA rennur út 1. maí 2014.