Hefðbundnir bankar standa nú frammi fyrir hraðri tækniþróun og nýjum þörfum viðskiptavina. Framkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs Arion banka segir bankana þurfa að vera vakandi og bregðast við þróuninni eins og Arion hefur gert á síðustu 18 mánuðum.

Umhverfi hefðbundinnar bankastarfsemi hefur breyst töluvert á undanförnum árum. Bankar standa nú frammi fyrir hraðri tækniþróun auk þess sem þarfir viðskiptavina eru að breytast og krafan um að hægt sé að gera hlutina á netinu hefur aukist.

Arion banki hefur staðið fremst íslensku viðskiptabankanna í þessari þróun og hefur síðan í ágúst síðastliðnum kynnt tíu stafrænar lausnir sem gefa viðskiptavinum kost á því að sinna bankaviðskiptum í gegnum netið sem áður fóru einungis fram í útibúum bankans.

Miklar breytingar með nýju skipulagi

Rakel Óttarsdóttir, framkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs Arion banka segir að á síðustu 18 mánuðum hafi miklar breytingar átt sér stað innan bankans.

„Við settum okkur stafræna stefnu fyrir einu og hálfu ári þar sem við einsettum okkur að vera leiðandi í stafrænni þjónustu og þannig veita viðskiptavinum okkar þægilegri bankaþjónustu. Við erum í rauninni að vinna öll verkefni sem varða upplýsingatækni út frá því. Á þessum 18 mánuðum erum við búin að fara í gegnum tíu verkefni í nýju skipulagi sem ekki þekktist áður í hugbúnaðarþróun fyrirtækja á Íslandi,“ segir Rakel.

Nýtt skipulag felst í því að sett eru upp þverfagleg teymi með aðkomu allra eininga bankans sem vinna í einu afmörkuðu verkefni í 16 vikur. Þeir sem vinna í verkefninu fara úr sínu hefðbundna starfi og vinna einungis að verkefninu í þessar 16 vikur með það að markmiði að endurskapa lykilferli viðskiptavina bankans. Að 16 vikum loknum er varan sett í loftið og enginn frestur er gefinn.

Fyrsta stafræna lausnin frá Arion banka, sem unnin var með þessum hætti, var kynnt í ágúst 2016. Með henni var nýjum viðskiptavinum gefinn kostur á því að stofna til viðskipta á netinu með rafrænum skilríkjum og sleppa þannig við að fara í útibú til þess. Í desember kynnti bankinn tvær nýjar stafrænar lausnir.

Sú fyrri var að bjóða viðskiptavinum upp á greiðsludreifingu á kreditkorti í netbanka eða smáforriti bankans. Varð breytingin til þess að símtölum til bankans með ósk um greiðsludreifingu fækkaði um 75% milli apríl 2016 og 2017.

Hin lausnin sem kynnt var í desember býður upp á greiðslumat á netinu. Viðskiptavinir þurfa því ekki að safna gögnum sjálfir heldur sækir bankinn þau rafrænt með leyfi viðskiptavinar. Með þessari nýjung hefur afgreiðslutími á greiðslumati styst úr 10 dögum niður í þrjár mínútur.

Í febrúar voru svo rafrænar íbúðarlánsumsóknir kynntar til leiks. Nú er hægt að sækja um íbúðalán hjá bankanum á netinu og tekur ferlið 30 mínútur í stað 20 daga. Í júní voru kynntar tvær nýjar lausnir til viðbótar. Fyrirtæki geta nú stofnað til viðskipta á netinu og byggir sú lausn á auðkenningu og undirritun stjórnar með rafrænum skilríkjum.

Þá hefur bankinn einnig boðið viðskiptavinum upp á að sækja rafrænt um endurfjármögnun íbúðalána og undirrita öll fylgiskjöl með rafrænum skilríkjum. Hjá Arion banka hefur einnig verið opnað fyrir hlutabréfaviðskipti í netbankanum auk þess sem bankinn setti í loftið smáforrit Einkaklúbbsins sem, með stafrænum hætti, gerir tilboð eins öflugasta fríðindaklúbbs landsins enn aðgengilegri. Hafa um 27.000 viðskiptavinir bankans sótt smáforritið frá því í febrúar.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .