*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 1. október 2015 17:33

Bæjarfulltrúi í Fjallabyggð handtekinn út af fjárdrætti

Tveir menn eru grunaðir um fjárdrátt hjá Sparisjóði Siglufjarðar og er annar þeirra bæjarfulltrúi í Fjallabyggð.

Ritstjórn
Sparisjóður Siglufjarðar.
Haraldur Guðjónsson

Tveir menn voru í gær handteknir grunaðir um fjárdrátt hjá Sparisjóði Siglufjarðar. Vísir.is greindi síðan frá því í dag að annar þeirra sem handteknir voru er bæjarfulltrúi í Fjallabyggð. Í fréttinni kemur jafnframt fram að bæjarfulltrúinn hafi samkvæmt áreiðanlegum heimildum játað aðild sína að málinu.

Sérstakur saksóknari vildi ekki gefa upp um hvern var að ræða né hve mikið fé umræddir aðilar drógu að sér og vísaði hann þar til rannsóknarhagsmuna. Átta starfsmenn hans fóru norður í land vegna málsins í fyrradag og framkvæmdu húsleitir, en ekki var farið fram á gæsluvarðhald yfir þeim handteknu.

AFL Sparisjóður sendi í gær frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að við athugun sérstaks saksóknara í alveg óskyldu máli hafi komið upp rökstuddur grunur fyrir því að fjárdráttur hafi átt sér stað á fyrrum skrifstofu sparisjóðsins. Í framhaldinu var málið kært til sérstaks saksóknara.