*

þriðjudagur, 25. febrúar 2020
Innlent 27. janúar 2020 11:09

Bæjarstjóri Ísafjarðar hættir

Guðmundur Gunnarsson var ráðinn sem bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar 2018 af meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.

Ritstjórn
Guðmundur Gunnarsson fráfarandi bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar er úr nágrannasveitarfélaginu Bolungarvík, en íbúar þar hafa löngum ekki viljað sameinast alltumliggjandi sveitarfélaginu Ísafjarðarbæ sem nær til Suðureyrar, Flateyrar og Þingeyrar.
Haraldur Guðjónsson

Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, er hættur störfum, en hann var ráðinn í kjölfar myndunar nýs meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í bænum í kosningunum 2018.

Er meirihlutinn sagður hafa komist að samkomulagi um starfslok Guðmundar á vef sveitarfélagsins og hann láti af störfum nú þegar:

„Ástæða starfsloka er ólík sýn á verkefni á vettvangi sveitarfélagsins. Telja aðilar það sveitarfélaginu fyrir bestu að leiðir skilji.“

Á næstu dögum mun skýrast hvernig ráðningu næsta bæjarstjóra verður hagað en þangað til mun Þórdís Sif Sigurðardóttir bæjarritari gegna starfinu sem staðgengill bæjarstjóra.

Sveitarfélagið Ísafjarðarbær nær yfir bæjarkjarnana Ísafjörð sem staðsett er á Eyri við Skutulsfjörð, Hnífsdal, Þingeyri, Flateyri og Suðureyri, en tveir síðustu bæirnir urðu fyrir skakkaföllum vegna snjóflóða á dögunum.

Guðmundur var í kjölfarið skipaður í starfshóp ríkisstjórnarinnar til að kanna leiðir til að byggja upp traust íbúa Flateyrar á samfélagslegum innviðum og gera tillögur um aðgerðir til að treysta stoðir byggðarinnar að því er Kjarninn segir frá.

Guðmundur er frá nágrannabænum Bolungarvík, sem ekki er hluti af Ísafjarðarbæ, og til að tryggja að svo verði áfram hefur sveitarfélagið þar virkjað aðgerðaráætlunina 1000+, sem felur í sér að koma íbúum yfir þúsund íbúa markið sem miðað er við sem lágmarksfjöldi samkvæmt hugmyndum Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.