Haraldur Sverrisson er bæjarstjóri í Mosfellsbæ.
Haraldur Sverrisson er bæjarstjóri í Mosfellsbæ.
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Bæjarstjóri Mosfellsbæjar fékk 360 þúsund króna hækkun mánaðarlauna sinna á árabilinu 2016 til dagsins í dag að því er Fréttablaðið greinir frá. Hækkuðu laun bæjarfulltrúa á sama tíma um 34%, en bæjarstjórnin afsalaði sér ekki að fullu hækkunum Kjararáðs á þingfarakaup líkt og margar sveitastjórnir gerðu.

Laun og launatengd gjöld bæjarstjórnarinnar eru afgreidd saman í einni upphæð í ársreikningi sveitarfélagsins og er þar því lítið gegnsæi, en þau eru jafnframt án samanburðar við fyrra ár. Hefur Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar fengið um tvær milljónir króna á mánuði en hann þiggur laun bæði sem bæjarfulltrúi og bæjarstjóri á síðasta ári.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá hyggst Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar sem er nýkjörinn í bæjarstjórn þar afþakka laun sem bæjarfulltrúi á meðan hann gegnir störfum bæjarstjóra. Er það 361 þúsund króna hækkun frá árinu 2016, sem nemur um 22% hækkun launa. Laun bæjarstjóra Mosfellbæjar fylgja launum ráðuneytisstjóra samkvæmt ráðningarsamningi.

Heildarlaun bæjarfulltrúa árið 2017 voru 34 milljónir en 25,4 milljónir árið áður. Það gerir 33,8% hækkun. Hækkanirnar tóku gildi 1. janúar 2017 á sama tíma og þingfarakaup hækkaði í samræmi við úrskurð Kjararáðs. Þó var hækkunin ekki jafn mikil og ella því ákveðið var að lækka þókun til bæjarfulltrúa úr 25% af þingfararkaupi í 22,5%. Það skilaði sér í að hækkun launa bæjarfulltrúa var eins og áður segir um 34%, en hefði verið um 45% ella ef miðað hefði verið við úrskurð Kjararáðs.