Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, fær 1,1 miljón krónur í laun á mánuði og 1.300 kílómetra í bifreiðastyrk á mánuði næstu fjögur árin, samkvæmt ráðningarsamningi hennar sem meirihluti bæjarráðs Hveragerðisbæjar samþykkti á síðasta fundi sínum. Samkvæmt síðasta ráðningasamningi sem gerður var við Aldísi árið 2010 fékk hún 1.050 þúsund krónur á mánuði. Hún var þá líka með 1.300 kílómetra bifreiðastyrk sem jafngilti um 130 þúsund krónum til viðbótar við launin. Miðað við það gæti Aldís verið með í dag um rúmlega 1,2 milljónir króna í mánaðarlaun.

Fram kemur í Sunnlenska fréttablaðinu í dag að meirihlutinn í bæjarráðinu er skipaður sjálfstæðismönnum. Tekið er fram að Njörður Sigurðsson, sem situr í minnihluta bæjarráðsins fyrir hönd Samfylkingarinnar, greiddi atkvæði á móti ráðningarsamningnum.