Bæjarstjórn Garðabæjar vill að ríkisstjórnin beiti sér fyrir breytingum á tekjustofnum sveitarfélaga til að tryggja að þeir séu í samræmi við þau verkefni sem þeim er falin. Áskorun um efnið var samþykkt samhlóða á fundi bæjarstjórnar í gær.

Á meðal þess sem bæjarstjórnin vill fá breytt eru reglur um endurgreiðslu virðisaukaskatts, allar undanþágur frá greiðslu fasteignaskatts falli niður og að sveitarfélög fái hlutdeild í almenna hluta tryggingagjaldsins og hlutdeild í sköttum af umferð.

Í greinargerð með tillögunni er bent á það að rekstrarkostnaður sveitarfélaga muni hækka langt umfram tekjur þeirra á næstu mánuðum og því muni sveitarfélög illa geta staðið undir hlutverki sínu og skyldum.