Mjólkurbúið Kú hefur sent frá sér fréttatilkynningu í kjölfar úrskurðar Samkeppniseftirlitsins um brot Mjólkursamsölunnar á samkeppnislögum.

Segir í tilkynningunni að mjólkurbúið fagni því að ítarleg skoðun Samkeppniseftirlitsins hafi staðfest umkvartanir þess. Beint fjárhagslegt tjón sem Mjólkurbúið Kú og Mjólka hafi orðið fyrir á árunum 2008 til 2014 vegna þessara viðskiptahátta MS hafi numið 200 milljónum króna. Félögin muni gera kröfu um að fá tjónið bætt.

Þá segir í tilkynningunni að um leið og úrskurður Samkeppniseftirlitsins sé til þess fallinn að styrkja frjáls og heiðarleg viðskipti sé hann dapurlegur vitnisburður um óásættanleg vinnubrögð stjórnenda MS. Íslenskur mjólkuriðnaður og mjólkurframleiðendur í landinu eigi betra skilið en að þurfa að horfa upp á þeirra eigið fyrirtæki staðið að alvarlegum lögbrotum. Óskandi sé að stjórnendur MS dragi réttan lærdóm af úrskurði Samkeppniseftirlitsins.

Að lokum segir að vert sé að benda á að MS sé að mestu undanþegið samkeppnislögum. Í ljósi þess að fyrirtækið og forveri þess, Osta- og smjörsalan, hafi ítrekað verið staðin að brotum á þeim takmarkaða hluta sem samkeppnislög ná til hljóti þau að gera kröfu um að undanþágur MS frá samkeppnislögum verði afnumdar með öllu þannig að mjólkuriðnaður búi við sömu samkeppnisaðstæður og annar fyrirtækjarekstur á Íslandi.