Innlendir kjúklinga- og svínabændur og afurðastöðvar í landbúnaði fengu samtals í sinn hlut rúmlega 41% af tollfrjálsum innflutningskvóta fyrir kjötvörur, sem úthlutað var fyrir fyrri helming ársins 2019 samkvæmt tollasamningi Íslands og ESB. Þetta kemur fram á síðu Félags atvinnurekanda . Bændur og afurðastöðvar flytja inn nærri 84% af öllum svínakjötskvótanum. Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda segir þessar tölur sýna vel að viðkomandi aðilar hafi engar áhyggjur af meintri heilbrigðisvá vegna kjötinnflutnings.

Samtals er heimilt að flytja inn 1.397 tonn af kjötvörum frá ríkjum Evrópusambandsins án tolla á fyrri helmingi ársins. Innlendir framleiðendur fengu í útboði í lok síðasta árs 573,5  tonn af kvótanum í sinn hlut, eða 41,05%.

Ef horft er á einstaka afurðaflokka, flytja innlendir kjötframleiðendur eða afurðastöðvar í landbúnaði inn 22% nautakjötkvótans, 84% í svínakjöti, 37% af alifuglakjöti, 10% af þurrkuðum og reyktum skinkum, 24% af pylsunum og 5% af tollkvóta fyrir eldaða kjötvöru.

Hafa ekki áhyggjur af hreinleika innflutnings

„Við höfum verið gagnrýnin á að innlendir framleiðendur megi bjóða í tollkvóta vegna þess að þeir geti með því að bjóða hátt haldið uppi verðinu. Markmiðið með tollkvótunum er auðvitað að lækka verð í þágu neytenda,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

„Hins vegar setur þessi mikli innflutningur bænda og afurðastöðva í íslenskum landbúnaði líka fullyrðingar um mikla heilsufarsvá, sem standi fyrir dyrum vegna innflutnings á matvælum, í nýtt ljós. Þessir aðilar leggja allir mikla áherslu á hreinleika vöru sinnar og hafa augljóslega engar áhyggjur af hreinleika innflutts kjöts. Enda sýna niðurstöður vísindamanna, sem FA hefur fengið sér til ráðgjafar, að afar lítil áhætta fylgir innflutningi á kjötvörum til landsins, jafnvel þótt farið verði að skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum og opnað fyrir innflutning á fersku kjöti.“