„Við ákváðum að vaða út í djúpu lögina og gefa út DVD-disk þótt margir í bransanum segi að það sé dáin grein,“ segir Bryndís Geirsdóttir framleiðandi sjónvarpsþáttanna Hið blómlega bú og einn bænda í Árdal í Borgarfirði. Þættirnir eru um kokkinn Árna sem nýfluttur er frá Manhattan, sem lætur draum sinn rætast um líf í sveit og sest að í Árdal. Þar býr hann til mat úr afurðum af bænum og í sveitinni.

Þættirnir voru sýndir á Stöð 2 í vor og voru endursýndir í haust. Nú er unnið að gerð annarrar þáttaraðar um lífið í sveitinni sem mun heita Hátíð í bæ. Samhliða þessu vinna bændurnir sömuleiðis að gerð DVD-disks með fyrstu þáttaröðinni. Bryndís segir að útgáfa disksins muni kosta um eina milljón króna. Þau í Árdal safna áheitum á fjármögnunarsíðunni Karolina Fund fyrir útgáfunni og leita eftir fá hálfa milljón króna frá þeim sem vilja styðja við verkefnið. Bryndís segir það hafa skilað góðum árangri. Á fyrsta sólarhringnum safnaðist þriðjungur þeirrar hálfu milljóna króna sem bændurnir óska eftir. Í gær voru loforðin komin upp í 77%.

Bryndís segir í samtali við VB.is DVD-diskinn glæsilegan, framleiðsluna huggulega og umslagið, sem vinkona bændanna bjó til úr pappír, líta út eins og gamaldags uppskriftabók. Diskurinn er framleiddur í Þýskalandi og býst Bryndís við að hann skili sér til landsins í byrjun desember.

Diskurinn verður með íslenskum og enskum texta, sem ætti að gagnast bæði þeim útlendingum sem vilja sjá baslið í sveitinni og þeim útlendingum sem vilja læra íslensku.