„Ég veit ekkert um það,“ segir Gunnar Gunnarsson, bóndi á bænum Selfossi I, um hugsanlega samninga milli stangaveiðifélaga og bænda sem eiga rétt á að leggja net sín á vatnasvæði Hvítár og Ölfusár í Árnessýslu.

Eftir sumarið 2011 rennur út samningur milli Stangaveiðifélags Reykjavíkur (SVFR) og Selfossbænda um uppkaup á netalögnum í ánum, sem hafa það að markmiði að fjölga löxum sem ganga upp í ár eins og Sogið og Stóru-Laxá. Miklir hagsmunir eru í húfi því stangaveiðimönnum er seldur aðgangur að þessum ám fyrir háar fjárhæðir á ári hverju. Því meiri sem veiðivonin er og stærri fiskar í vændum, þeim mun dýrari veiðileyfi.

Mestu hagsmunina á vatnasvæðinu hafa SVFR og Lax-á en á móti hafa bændur hagsmuni af því að veiða lax í net til að verka og selja. SVFR gerði fimm ára samning við Selfossbændur og einnig bændur að Laugardælum og Hrauni í Ölfusi, sem eru runnir út.

„Öðrum var ekki boðið það. Þetta voru jarðirnar þar sem besta veiðin var á,“ segir Gunnar aðspurður af hverju fleiri voru ekki með í þessum samningum.

Tugir milljóna

Eftir að Lax-á tók Stóru-Laxá á leigu hefur SVFR ekki sömu hagsmuni og áður að kaupa upp netalagnirnar. Páll Þór Ármann, framkvæmdastjóri SVFR, segir að ekki sé útlit fyrir að þessum samningum verði framlengt. Á heimasíðu stangaveiðifélagsins birtist nýverið frétt þar sem kom fram að allt eins megi búast við því að netaveiði hefjist aftur og lækki leigu fyrir stangaveiðirétt á svæðinu á nýjan leik. SVFR hafi kostað tugmilljónum í verkefnið og veiði hafi aukist í Soginu og Stóru-Laxá í kjölfarið.

Stefán Sigurðsson, sölustjóri hjá Lax-á, segir að viðræður við SVFR standi yfir um samstarf við netauppkaupin nú í sumar. Spurning sé svo um fyrirkomulagið á næsta ári. Ekkert sé byrjað að ræða það.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.