Bændur sem tóku lán í erlendri mynt fyrir hrun standa betur í dag en þeir sem tóku verðtryggð lán í íslenskum krónum á sama tíma. Ólafur Þór Þórarinsson, ráðgjafi hjá Búnaðarsambandi Suðurlands, segir í samtali við Morgunblaðið í dag hafa aðstoðað marga bændur við framtalsgerð. Hann segir stöðu búanna ákaflega misjafna. Þeir sem hafi tekið erlend lán séu búnir að fá leiðréttingu á meðan verðtryggð lán hinna hafi hækkað mikið.

Hann þekkir dæmi þess að bændur hafi brugðið búi vegna skulda og einhverjir séu að hugsa sig um hvort þeir geti haldið áfram búrekstri vegna skulda sinna.

Þá bendir Ólafur á að þegar erlendu lánin voru leiðrétt var leiðréttingin færð sem tekjur. Það veldur því að nú verða bændur sem eru réttum megin við strikið í rekstri sínum að borga tekjuskatt af leiðréttingunni. Morgunblaðið segir að dæmi séu um að bændur hafi ekki gjaldfært hækkunina eða gengismuninn á lánum sínum þegar þau stökkbreyttust. Nú þurfa þeir að borga tekjuskatt af leiðréttingunni án þess að hafa nýtt sér gjaldfærsluna til skattalækkunar á árum áður. Þeir eigi þó rétt á leiðréttingu aftur í tímann hafi þeir ekki gjaldfært hækkunina.