Bændur vilja ekki grundvallarbreytingar á búvörusamningunum, en samningarnir hafa sætt mikilli gagnrýni undanfarið. Má þar nefna langan samningstímann, sem er 10 ár, en bændur taka ekki í mál að hann verði styttur, né heldur að greiðslurnar sem þar er mælt fyrir um verði minnkaðar.

Greiðslur nema 132 milljörðum

Þetta kemur fram í máli Sindra Geirssonar, formanns bændasamtakanna, í frétt Fréttablaðsins í dag. Gagnrýnir hann að ráðuneyti landbúnaðarmála hafi ekki unnið sín mál á nægilega opin hátt með þinginu. „Þetta er spurn­ing um umboð við­semj­and­ans hinum megin frá,“ segir Sindri.

Fram hefur komið í fréttum undanfarið að margir þingmenn stjórnarflokkanna muni ekki samþykkja búvörusamningana að óbreyttu. Samningarnir eru milli ríkisins og bænda og snúa bæði að landbúnaðarlögum og starfsskylirðum við framleiðslu grænmetis, kindakjöts og nautgripaafurða.

Munu greiðslur samkvæmt þeim nema í heild um 132 milljarða á samningstímanum, en ráðgert er að þær fari eilítið minnkandi á samningstímanum og fari úr um 13,8 milljörðum króna á næsta ári en enda í 12,7 milljörðum króna árið 2026 þegar samningunum lýkur.

Verðtrygging samningana gulltryggð

Greiðslurnar munu þó eflaust verða hærri enda eru samningarnir verðtryggðir og ofaná það er endurskoðunarákvæði sem einungis er hægt að túlka til hækkunar á greiðslum, tvisvar á samningstímanum. Er tekið fram að ef árleg framlög miðist við forsendur fjárlaga fyrir árið 2016, en þær taki árlegum breytingum í samræmi við verðlagsuppfærslu fjárlaga. Leiðrétta skuli svo mismuninn í fjárlögum næsta árs ef þróun meðaltalsvísitölu neysluverðs verði önnur en verðlagsforsendur fjárlaga ársins.

Þannig er í raun gulltryggt að verðgildi samningsins muni ekki minnka hlutfallslega. Lögð hefur verið áhersla á það af hálfu Framsóknarflokksins að samþykkja skuli samningana áður en kosningar verða haldnar í haust.