Að mati Samkeppniseftirlitsins eru bændur staddir á ákveðnum upphafspunkti þar sem þeir hafa að verulegu leyti misst forræði á afurðavinnslukerfi því sem þeir byggðu upp á síðustu öld. Telur eftirlitið að skoða ætti að auka möguleika bænda til heimaslátrunar, heimavinnslu og markaðssetningar á eigin afurðum „með rekjanleika sem styrkleika að vopni“.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í umsögn eftirlitsins við frumvarp Viðreisnar um breytingar á búvörulögum. Með frumvarpinu yrðu sérreglur landbúnaðarins afnumbar að stærstu leyti og dregið úr afskiptum ríkisins af verðlagningu, framleiðslu og vinnslu. Að mati Samkeppniseftirlitsins virðist það tíðkast meðal bænda að líta fremur á sig sem launþega heldur en atvinnurekendur.

„Ein ástæða þessa rótgróna viðhorfs er að líkindum sú staðreynd að mikilvægar búvörur hafa í gegnum tíðina lotið opinberri verðlagningu. Önnur ástæða kann að vera sú að bændur eru á ýmsan hátt þiggjendur í því umhverfi sem þeir starfa. Þar er ekki bara átt við að þeir njóti opinbers stuðnings við framleiðslu sína heldur hafa þeir, hver og einn, mjög lítil áhrif á það hvernig afurðum þeirra er ráðstafað,“ segir í umsögninni.

Bendir eftirlitið á að á síðasta ári hafi kjötafurðastöðvar sem eru að engu leyti eða í minnihlutaeigu bænda haft um 44% markaðshlutdeild í innlögn sauðfjárafurða, 48% í nautakjöti og 72% í hrossakjöti. Rétt er að taka fram að við þá útreikninga er byggt á því að bændur séu meirihluti félagsmanna Kaupfélags Vestur-Húnvetninga, Kaupfélags Skagfirðinga og dótturfélaga.

„Sem dæmi um laka samningsstöðu bænda gagnvart afurðastöðvum þá tilkynntu allar stöðvar um lækkun á dilkaverði til sauðfjárbænda sláturtíðina 2017. Þannig boðuðu afurðastöðvar lækkað verð til bænda um allt að 35% fyrir haustið 2017 til viðbótar við 10% lækkun ársins á undan. Nú í haust gáfu sláturhús ekki út afurðaverð til sauðfjárbænda fyrr en sláturtíðin var hafin,“ bendir eftirlitið á.

Leggur eftirlitið til að rétt sé að huga að fleiri leiðum til að styrkja stöðu bænda. Bendir eftirlitið meðal annars á Evróputilskipun um ósanngjarna viðskiptaskilmála á milli fyrirtækja í virðiskeðju landbúnaðarins og matvæla. Sem dæmi leggur sú bann við því að öflugir kaupendur geti breytt samningum sínum einhliða. Einnig mætti heimila sölu úr heimaslátrun en sem stendur er slíkt óheimilt.

„Samkeppniseftirlitið hefur ítrekað kallað eftir framangreindum breytingum í umsögnum og álitum um landbúnaðarmál og telur að verði framangreind ákvæði frumvarpsins lögfest muni það efla samkeppni og bæta hag bæði neytenda og bænda. Styður eftirlitið því eindregið að frumvarpið verði samþykkt á Alþingi í óbreyttu horfi.“